föstudagur, júní 30, 2006

Sólin komin aftur

Mikið saknar maður hennar þegar hún hverfur í nokkra daga. En það er sennilega betra en að þurfa að sakna hennar í nokkrar vikur eða mánuði eins og sumir gera í klakaboxinu.

Tók klassískan "föstudagspakka" í hádeginu. Hjóla niður Vestebrogade og niður á Strikið þar sem tékkað er á púlsinum. Slatti af fólki, mis vel klætt í góða veðrinu auðvitað. Hjóla aftur til baka og koma við á Mikka og henda sér svo í Sport Masteren. Þetta gerðum við laddmundur reglulega þegar hann sá sér sóma í að vera hérna með mér í Danmörku. Þessi ferð var tribute til hans ...

HM á eftir. Einn stærsti leikur á HM fyrr eða síðar. Lið sem bæði hafa hampað Heimsmeistaratitlinum og mæst tvisvar í úrslitum HM ('86 og '98 ef mig minnir rétt).

ARGENTÍNA vs. ÞÝSKALAND

Þessi á eftir að fara í sögubækurnar ........

miðvikudagur, júní 28, 2006

Loftsteinn dauðans

Hvað mundi gerast ef loftsteinn rækist á Jörðina? Horfið á þessa ógnvekjandi mynd til að komast að sannleikanum ...

mánudagur, júní 26, 2006

Forvarnahúsið

Á föstudag fyrir helgi opnaði Sjóvá nýtt hús sem allt er helgað forvörnum. Húsnæði liggur svo til í bakgarðinum hjá Sjóvá eða í því húsnæði sem áður hýsti prentvélar Morgunblaðsins.
“Markmiðið með Forvarnahúsinu er að efla og samræma forvarnir í landinu með aðal áherslu á slysavarnir. Forvarnahúsið verður þannig öflugt þekkingarsetur um slysavarnir. Eitt helsta hlutverk Forvarnahússins er að miðla upplýsingum og fræða almenning um slysavarnir. Starfsmenn Forvarnahússins munu starfa með fyrirtækjum, félagasamtökum og opinberum aðilum að eflingu og samhæfingu slysavarna.„
Að þessu tilefni var opnuð síða með upplýsingum um verkefnið. Síðuna hannaði ég og sáu félagar mínir hjá Origo (aka. TM Software) um að vefa þetta saman. Verkið tók aðeins viku að gera (hönnun + forritun) og finnst mér bara hafa tekist bærilega til. Hvað finnst þér?

sunnudagur, júní 25, 2006

HM drama?

Ég var að enda við að horfa á leik Portúgala og Hollendinga. Í leiknum voru gefin 12 (16) gul spjöld og 4 rauð! Í gamla daga fékk fólk eitthvað fyrir peningana sína þegar það borgaði sig inn á slíkar viðureignir. Núna eru þetta bara slaksmál í hverju horni eftir að einhver hrynur í grasið við minnstu snertingu .... slæmur dagur fyrir knattspyrnuna.

Á myndinni má sjá Mark Van Bommel í leik Arsenal og Barcelona. Hann slapp ekki við að fá gult spjald í þessum leik frekar en aðrir.

Helgin

Enn ein fín helgi að baki og ekki úr vegi að líta um öxl og telja upp það markverðasta.

Fimmtudagur: Unnum fyrsta bikarleik sumarsins 2-3 eftir að hafa verið 2-0 undir í hálfleik. Sigurmarkið skoraði Jón "sekkur" 10 sekúndum fyrir leikslok. Fín byrjun á helginni.

Föstudagur: Vaknaði þunnur eftir mikla bjórdrykkju og pokerspil kvöldið áður. Ekki svo góð byrjun á deginum. Kreisti út nokkra tíma í vinnunni og tók svo ræmugláp með húsfrúnni um kvöldið.

Laugardagur: Fórum snemma upp í Bröndby Strandpark þar sem ég hafði mælt mér mót við mann. Hann ætlaði að selja mér hjól sem ég hafði fundið á smáauglýsingavef dba.dk. Mér leist svo vel á hjólið að ég keypti það á staðnum. Við tókum svo lestina heim aftur og Guðjón Ingi fékk að leggja sig í nokkra tíma áður en við héldum aftur á stað út. Fór með Erlu á nýja fáknum í dýragarðinn þar sem við skoðuðum dýrin í blíðskaparveðri. Guðjón Ingi skemmti sér konunglega og tók nokkrar geitur taki við litla hrifningu þeirra.

Sunnudagur: Við höfðum greinilega ekki labbað nóg á laugardeginum því í dag löbbuðum við þvert yfir Kaupmannahöfn. Tókum lestina niður í miðbæ, fórum rúnt í Tívolí og GI fékk að prufa öll uppáhalds tækin sín. Þaðan löbbuðum við niður Strikið og kíktum í búðir (þær sem opnar voru þeas.) GI sofnaði svo í kerrunni og við Erla fengum okkur lunch á Nyhavn í steykjandi sól og hita. Héldum aftur af stað og kíktum á Amalienborg og nokkra listigarða í hverfinu. Nú erum við komin heim og ekki laust við að fyrsti bruni sumarsins sé að líta dagsins ljós .......

fimmtudagur, júní 22, 2006

Kennimark á netinu

Fyndið hvað allt verður hallærislegt þegar það er fært yfir á íslensku. Meina það ekki í neikvæðri merkingu, frekar svona skemmtilega hallærislegt. Hver las ekki greinina hans Litla Hrauns Árna um að íslenska orðið MP3 spilari og kalla það "Tónhlöðu." Mér fannst það amk. skemmtilega hallærisleg lesning.
En það var nú ekki það sem ég ætlaði að skrifa um. Ég er þessa dagana mikið að spá í kennimarki mínu á netinu eða Online-Identity eins og það héti á enskunni. Mér finnst nefnilega ímynd mín afskaplega reitingsleg ef svo má að orði komast. Í dag eru allir sem eitthvað skoða netið með sitt eigið kennimark, ekki ósvipað og fyrirtæki gera til að aðgreina sig frá öðrum og standa út. Þetta snýst allt um að vera með gott eigið brand. Tökum dæmi:

Á þessari bloggsíðu geng ég undir nafniu "designsalot" þó svo að innskráningarnafn mitt sé "jonathangerlach." Ég hef hefðbundna e-mail addressu í vinnunni sem er jonni(hjá)idega.is en á gmail er ég jonni1977(hjá)gmail.com. Ekkert af þessum venjulegu nöfnum voru til þegar ég ætlaði að stofna mér Flickr reikning svo þar þurfti ég að notast við "kastaniubrunn." Á MSN nota ég vinnu netfangið sem er ágætt en á iChat þarf ég að nota jonni1977(hjá)mac.com. Á Skype er ég svo bara "jonni1977" eins og á Apple umræðuvefnum. Á vínvefnum corkd.com heiti ég gælunafni mínu "jonni" og á yahoo heiti ég bæði "skapalondesign" og "jonni1977jonni" (já, ótrúlegt ég veit) Á umræðuvef Arsenal heiti ég "gerlach" en á Ljósmyndakeppni.is heiti ég svo aftur "jonni."

Svona mætti lengi telja og er ég ekki einusinni byrjaður á Amazon, eBay og öllum þeim on-line verslunum sem maður hefur heimsótt um ævina.

Eins og sjá má er kennileiti mitt því mjög óreglulegt. Þessum notendanöfnum fylgir svo oft mismunandi aðgangsorð svo ennþá erfiðara verður að skrá sig inn á þessa staði ef maður man ekki allt frá A til Ö. Staðreyndin er sú að finna upp á einu notandanafni sem hægt er að nota á öllum þessum vefjum samstundis er næstum útilokað. Það er sama hverju maður finnur upp á, það er alltaf einhver búinn að taka það frá.

Það er þó von fyrir félaga mína í hönnunargeiranum á Íslandi því þeir/þau bera falleg íslensk nöfn sem hægt er að nýta sér. Ber þar helst að nefna Dagný Reykjalín sem oft notar "daia" eða bara "reykjalin." Ragnar Freyr kunningi minn hefur þetta einfalt og notar bara "ragnarfreyr" og/eða hönnunarnafn sitt "onrush." Egill Harðar notar nafnið "egillhardar" á flest öllum stöðum (bloggið, porfolio-inu, Flickr, del.icio.us osfrv.)

Ég ætla að leggja höfuðið í bleyti. Ímynd mín á netinu þarf yfirhalningu eða "brand make-over." Þeir sem hafa þegar fengið hugmyndir eru vinsamlegast beðnir að skilja eftir komment hér fyrir neðan, ég yrði mjög þakklátur.

þriðjudagur, júní 20, 2006

Kveðja, Lególand, Maður leiksins

Enn ein fín helgi að baki. Ég var í fríi í gær svo það er eiginlega mánudagur í manni í dag.

Laugardagurinn fór í það að kveðja runa og Heiðrúnu sem voru að fara í langt ferðalag til Íslands. Ætluðu að keyra til Noregs og gista hjá vinafólki, keyra svo áfram til Bergen, gista á hóteli og taka Norrænu til Íslands daginn eftir. Keyra svo frá Seyðisfirði til Reykjavíkur. Samtals um 2000 km, ekki lítið það og alls ekki öfundsvert.

Að morgni sunnudags fór ég svo út í Valby þar sem F.C Ísland átti að mæta Beckham Boys. Eitthvað var slöpp mætingin þennan daginn og rétt náðum við í lið fyrir leikinn. Nokkrir voru þunnir og aðrir voru farnir að kvíða hitanum sem var kominn hættulega nálægt 30 gráðunum (klukkan ekki orðin 12!). Liðið er búið að tapa síðustu tveim leikjum í deildinni svo það var afar mikilvægt fyrir okkur að rífa sig upp og vinna með stæl. Ekki varð úr því og við töpuðum mjög ósanngjarnt 1-2. Þegar ég segi ósanngjarnt þá á ég við að við vorum mun betra liðið, betur spilandi og meiri metnaður. En það vantaði því miður skiptimenn í þessum hita (þeir voru með 3), nýr óreyndur markmaður í markinu og allir sóknarmenn liðsins meiddir eða óviðlátnir svo við vorum ekki beittir fram á við heldur. Afsakanir ég veit en þetta skiptir samt máli þegar á heildina er litið.

Þrátt fyrir umrætt tap er hægt að finna tvo jákvæða hluti við leikinn:
  1. Ég spilaði 90 heilar mínútur í 28 stiga hita án þess að detta niður dauður eða fá krampa í gaurinn.
  2. Ég var valinn maður leiksins (sem er alltaf góð tilfinning).
Á mánudeginum fórum við fjölskyldan með Hildi tengdó í Legoland. Hildur er með bílaleigubíl sem við auðvitað notuðum til ferðalagsins enda dágóður spölur. Fengum þetta fína veður og skemmtum okkur konunglega innan um allar hinar fjölskyldurnar í Legoland. Guðjón Ingi lék við hvern sinn fingur og skemmti sér auðvitað mjög vel eins og við hin.

laugardagur, júní 17, 2006

Hæ hó og jibbí

... þá er kominn 17. júní. Ekki eins og maður taki mikið eftir því hérna enda hefur þjóðhátíðardagur Íslendinga lítið með Dani að gera. Svo er ekki einusinni rigning ...

Annars hefur myndast örlítið tóm hjá okkur Erlu. Þórhallur og Þórunn fóru yfir hafið mikla í gærkvöldi og runi og Heiðrún lögðu af stað í ferðina löngu í morgun. Við Erla og Guðjón Ingi erum því allt í einu orðin ein eftir í góða veðrinu.

Á eftir ætlum við þó að reyna að halda upp á þjóðhátíðardaginn með öðrum Íslendingum sem sáu sér sóma í að eyða sumrinu í Danmörku. Sá fögnuður verður haldinn á Amager Strand að hætti Íslendingafélagsins. Vonum að það verði eitthvað í líkingu við miðbæ Reykjavíkur á góðum degi.

Leikur á morgun við Beckham Boys. Verðum að komast aftur á sigurbraut eftir tvo tapleiki ... það er algjört must.

miðvikudagur, júní 14, 2006

Flock


Var rétt í þessu að prufa nýjann browser (vafra?) sem lofar góðu. Auk hans nota ég auðvitað Safari og Firefox en það er alltaf gaman að prufa eitthvað nýtt. Hann til dæmis styður vel við Flickr, Photobucket og allar helstu blogg þjónustur á vefnum í dag svo það ætti að vera að auðvelt að blogga núna :) Ég er einmitt að skifa þessa færslu hér í þennan ágæta browser.

FlockScreenSnapz057.png on Flickr - Photo Sharing!

technorati tags:, , ,

mánudagur, júní 12, 2006

Auglýsinga M(bl)anía

Er það bara ég eða er mbl.is að fara vel yfir strikið með þessum nýju auglýsingaborðum efst á síðunni. Þessi síða er orðin eins og argasti smáauglýsingavefur. Þetta er óþolandi.

Sjálfur skoða ég (eins og flestir Íslendingar) þessa síðu nokkuð reglulega, jafnvel oft á dag. Síðan verður auðvitað hæg fyrir vikið enda þarf að hlaða niður öllum þessum ósóma áður en maður getur farið að lesa það sem skiptir mestu máli, fréttir.

Ég tók að gamni skjámynd af vefnum (sjá hér)eins og hann er í dag og merki auglýsingar með rauðum lit. Það má nokkuð greinilega sjá hversu mikið pláss auglýsingarnar eru í raun að taka. Það er allavega mjög lítið pláss fyrir alvöru efni.

laugardagur, júní 10, 2006

Hitabylgja

Maður lifandi, nú er farið að hitna í kolunum. 21 stiga hiti kl. 8.30 í morgun. Eins gott að bera lotion á kryppuna.

Annars er leikur í deildinni á eftir kl. 15.15 og mætum við sterkasta liði deildarininar Boldklubben Cito. Eftir sigur okkar manna verður haldið á Solbakken þar sem menn hita upp með grillkjeti og mjéð. Um kvöldið verður svo meiri fótbolti þar sem Tóbakið mætir Argentínu. Stefnir í skemmtilegan dag :)

föstudagur, júní 09, 2006

Góðverk gærdagsins

Í gær varð ég fyrir því óláni að týna símanum mínum. Ég var á harðahlaupum á eftir strætó og datt hann sennilega úr öðrum vasanum við hamaganginn. Ekki uppgötvaði ég þó missinn fyrr en ég var hálfnaður í vinnuna og taldi því ólíklegt að síminn væri ennþá á sínum stað ef ég snéri aftur til baka. Til öryggis sendi ég SMS í símann minn þar sem ég lofaði gulli og grænum skógum ef sá er finndi símann kæmi honum aftur til réttmæts eiganda. Erla týndi nefnilega símanum sínum fyrir einhverjum mánuðum síðan og hefur hún aldrei séð til hans aftur svo ég var ekki að gera mér miklar vonir (mætti nefna að hjólinu mínu var stolið fyrir nokkrum vikum) um að fá símann til baka. Það var því gríðarlega óvænt þegar ég fékk símtal (í símann hjá ladda) tveim tímum síðar. Einhver kona hafði fundið hann á götunni og í góðmennsku sinni hringt og komið honum í sjoppuna hinumegin við götuna. Ekki vildi hún fá neitt fyrir fyrirhöfnina svo ég þakkaði henni í bak og fyrir á minni vel slípuðu dönsku og bað hana vel að lifa.

Ég var svo glaður í hjarta gerði ég tvö góðverk í staðinn seinna um daginn (algjörlega ómeðvitað reyndar). Á leið minni á æfingu rakst ég á mann sem var við það að missa 100 kall úr rassvasanum. Ég kallaði auðvitað til hans og benti honum á seðilinn sinn. Hann var afskaplega ánægður að fá að vita þetta og skaut seðlinum djúpt ofan í vasann aftur. Í miðasölunni á lestarstöðinni gerði ég svo annað góðverk með því að rétta viðkunnanlegum manni númerið mitt þegar ég var á leiðinni út (ég þurfti nefnilega ekki að nota mitt) og sparaði honum því 10 mínútur í biðröð. Hann varð ákaflega ánægður enda kominn langt yfir þann aldur að nenna að bíða eftir nokkrum sköpuðum hlut.

Ég vildi að fólk gerði góðverk daglega og það mjög meðvitað. Þannig yrði heimurinn sennilega betri fyrir vikið (amk. betri en hann er í dag).

Svo er HM að byrja í kvöld. Opnunarleikur Þjóðverja og Costa Rica. Við laddmundur ætlum að byrja gleðina á Peter Bangs Vej með upphitun í gosi og snakki. Næstu vikur verða fótbolti, fótbolti, fótbolti ... maður lifandi!

fimmtudagur, júní 08, 2006

Lögverndaður hönnuður

Þá hefur Alþingi loksins ákveðið að gefa okkur grafísku hönnuðunum lögverndað vinnuheiti. Fannst mér þá vera kominn tími til enda löngu orðið þreytt að allir í heiminum sem einhverntíma hafa kveikt á Photoshop eða opnað Windows Paint geti kallað sig grafískan hönnuð.

miðvikudagur, júní 07, 2006

Miðvikudags sarpurinn

Jahérna, eftir hálf tómlegan sarp síðast kemur þessi inn með látum. Látum vaða:

Áttu iPod og verður oft rafmagnslaus? Afhverju ekki að kaupa sér svona lítið batterísbox (AA) svo þú getir hlaðið í neyð ....

Þetta er sennilega mesti tölvunörd sem Ísland hefur alið. Annars var ég ekkert ólíkur honum nokkrum árum seinna. Spilaði Kings Quest, Space Quest og alla þessa leiki út í eitt.

Ef þú ert ekki hrifin(n) af Hi-Fi frá Apple þá er SpecktoneRetro sennilega málið.

The Sad Tally. Hversu margir hafa hent sér af The Golden Gate brúnni í San Fran? Hér eru tölurnar og hvar fólk hefur hent sér af brúnni í gegnum árin. Það er nú til tölfræði fyrir allt ....

Ertu orðinn þreyttur á hönnunardrullunni í kringum þig? Hjá Logoworks er hægt að kaupa þjónustu margra grafískra hönnuða sem vinna freelance. Allir skila inn hugmyndum og þú velur þá bestu. Það má svo metast um gæði þessara hugmynda :/

Etre er fyrirtæki sem hefur þróað nýja tækni sem kallast Eye Tracking. Með þessari tækni er hægt að sjá hvert auga notandans leitar og hvað hann/hún skoðar hverju sinni. Ótrúlega þægilegt fyrir þá (mig) sem hanna vef viðmót flest alla daga :)

Íslendingar hafa fengið nýjan kvikmyndavef og heitir hann Film.is. Hef skoða smá af honum, lesið gagnrýni og annað og hann lofar góðu. Finnst ég samt endilega kannast við þessa rauðu stiku sem kemur efst (glitnir.is?)

Enn ein persónusköpunin í gangi hér. Eins og með KB banka, Lottó og flest öll stór fyrirtæki á Íslandi fara menn alltaf sömu leiðina. En þótt þessi herferð fyrir HM dagskrá Sýnar sé eins og allt annað þá hlæ ég alltaf jafn mikið af vitleysunni í honum Pétri. Hann er bara of fyndinn gaur.

Man einhver eftir stóra Virgin pósternum þar sem átti að finna 74 hljómsveitir á einni mynd? Hér er sama þraut nema þú átt að finna 100 kvikmyndir :)

Ertu vefhönnuður og þarft að mauka saman mikið af formtökkum yfir daginn? Láttu Buttonator sjá um þetta fyrir þig.

Færeysk skilti og annað vekur alltaf upp kátínu. Það er bara eitthvað svo fyndið við þetta blessaða tungumál :D

þriðjudagur, júní 06, 2006

Hvítasunnan

Nóg að gera um helgina víst. Föstudagurinn fór í grill og rólegheit hjá runa og Heiðrúnu. Veðrið búið að vera svolítið misjafnt svo maður þarf að vera tilbúinn að hlaupa inn ef það byrjar að þykkna upp. Já, veðrið hérna getur stundum verið jafn óútreiknanlegt og heima á Íslandi.

Laugardagurinn fór að miklu leiti í tuðruspark. Áttum leik við eitt af sterkari liðum í deildinni. Það var ágætur andi í hópnum til að byrja með og því mikið högg þegar við fengum á okkur fyrsta markið strax eftir eina og hálfa mínútu. Ekki bætti úr skák að mikill mótvindur var í fyrri hálfleik og erfitt fyrir okkur að finna rétta tempó-ið. Það var svo ekki fyrr en í fyrri hálfleik að við komum framar á völlinn og fórum að setja okkar mark á leikinn. Þeir náðu svo að skora aftur (pínu gegn gangi leiksins) áður en við náðum að setja okkar fyrsta. Eftir mikla pressu frá FC Íslandi síðustu mínúturnar komust þeir í skyndisókn og náðu að setja þriðja og síðasta mark leiksins, lokatölur 3-1 góðu liði B 1904 Kaupmannahöfn í hag.

Á Hvítasunnudag (Pinsedag) ákvað sólin að heiðra okkur með nærveru sinni og fór mikill tími í að sitja úti á svölum og sleika upp geislana. Við feðgar fengum okkur labbitúr í hverfinu og fengum okkur ís saman úti í Kisosknum á horninu. Það þótti litla manninum ekki leiðinlegt.

Á 2. Pinsedag (mánudag) fékk svo Guðjón Ingi hita og þurfti ég að vera með litla gaurinn heima á meðan hann var að jafna sig. Við horfðum á Ávaxtakörfuna svona 5 sinnum og Madagascar svona 2 sinnum. Ég kann þessar DVD myndir næstum utanbókar núna :) Erla er búin að vera vinna mikið í ritgerðinni sinni undanfarið og hefur maður séð lítið af henni nema þegar hún kemur heim að borða og sofa og svoleiðis :)

Í dag hef ég svo bara verið heima að vinna þar sem laddmundur er að leika hlutverk gestgjafa á meðan móðir hans og faðir eru í stuttu stoppi í Kaupmannahöfn. Við förum svo væntanlega niður á Vestebrogade í fyrramálið, þeas. ef Guðjón Ingi verður hress ...

Mánuður í Tenerife ... úffffff. Farinn að telja niður dagana .....