þriðjudagur, júní 20, 2006

Kveðja, Lególand, Maður leiksins

Enn ein fín helgi að baki. Ég var í fríi í gær svo það er eiginlega mánudagur í manni í dag.

Laugardagurinn fór í það að kveðja runa og Heiðrúnu sem voru að fara í langt ferðalag til Íslands. Ætluðu að keyra til Noregs og gista hjá vinafólki, keyra svo áfram til Bergen, gista á hóteli og taka Norrænu til Íslands daginn eftir. Keyra svo frá Seyðisfirði til Reykjavíkur. Samtals um 2000 km, ekki lítið það og alls ekki öfundsvert.

Að morgni sunnudags fór ég svo út í Valby þar sem F.C Ísland átti að mæta Beckham Boys. Eitthvað var slöpp mætingin þennan daginn og rétt náðum við í lið fyrir leikinn. Nokkrir voru þunnir og aðrir voru farnir að kvíða hitanum sem var kominn hættulega nálægt 30 gráðunum (klukkan ekki orðin 12!). Liðið er búið að tapa síðustu tveim leikjum í deildinni svo það var afar mikilvægt fyrir okkur að rífa sig upp og vinna með stæl. Ekki varð úr því og við töpuðum mjög ósanngjarnt 1-2. Þegar ég segi ósanngjarnt þá á ég við að við vorum mun betra liðið, betur spilandi og meiri metnaður. En það vantaði því miður skiptimenn í þessum hita (þeir voru með 3), nýr óreyndur markmaður í markinu og allir sóknarmenn liðsins meiddir eða óviðlátnir svo við vorum ekki beittir fram á við heldur. Afsakanir ég veit en þetta skiptir samt máli þegar á heildina er litið.

Þrátt fyrir umrætt tap er hægt að finna tvo jákvæða hluti við leikinn:
  1. Ég spilaði 90 heilar mínútur í 28 stiga hita án þess að detta niður dauður eða fá krampa í gaurinn.
  2. Ég var valinn maður leiksins (sem er alltaf góð tilfinning).
Á mánudeginum fórum við fjölskyldan með Hildi tengdó í Legoland. Hildur er með bílaleigubíl sem við auðvitað notuðum til ferðalagsins enda dágóður spölur. Fengum þetta fína veður og skemmtum okkur konunglega innan um allar hinar fjölskyldurnar í Legoland. Guðjón Ingi lék við hvern sinn fingur og skemmti sér auðvitað mjög vel eins og við hin.

Engin ummæli: