mánudagur, október 30, 2006

Wii vs. the rest

Nú keppast allir risarnir við að framleiða nýjustu og bestu leikjavélina. Microsoft eru þegar búnir að leggja sitt af mörkunum með Xbox 360 og Sony ætlar að draga lappirnar fram í desember og gefa sína vél, PlayStation 3 fyrir Kína/Japan og Bandaríkjamarkað.

Það yrði kaldur dagur í helvíti ef ég mundi einhverntíma kaupa mér Microsoft vöru svo ég hef horft nokkuð stíft á vörur Sony. Sjálfur á ég Sony PSP og líkar mjög vel.

Síðustu daga hefur þó önnur leikjavél bankað upp á hjá mér og er framleiðandi hennar enginn nýgræðingur. Þetta er leikjavélin Wii frá Nintendo. Það skemmtilega við Nintendo Wii vélina er að þarna er verið að prufa eitthvað nýtt í leikjagerð. Með nýrri fjarstýringu er hægt að draga notandann inn í leikina og leyfa honum að taka þátt með því að draga sig upp úr sófanum. Hinar leikjavélarnar fara þessa hefðbundnu leið og gera útlitið flott og leikina enn flottari en einhverntíma verður það þreytt og á þá fólk eftir að þyrpast að nýju vélinni fá Nintendo.

Á þessari síðu er hægt að horfa á myndskeið af fólki skemmta sér konunglega með fjarstýringuna.

Búinn að bæta þessu við á óskalistann minn á Amazon :)

mánudagur, október 23, 2006

Ég er ekki dauður

Nei, þvert í frá. Það er mikið búið að ganga á síðustu vikur og daga og því hefur ekki gefist mikill tími til skrifa.

Eins og frægt er orðið fórum við Erla í pílagrímsferð til Nýju Jórvíkur í byrjun október. Ég held að mér sé óhætt að segja að þangað verður farið aftur einhvern daginn. Við áttum svo 3 daga á Íslandi sem áttu að fara í vinnu og frágang á hinu og þessu. Á miðvikudeginum fór ég að finna til í olnboganum og ákvað að fara niður á slysó snemma á fimmtudeginum. Þá var olnboginn orðinn vel út þaninn og ákvað læknirinn (eftir 2 klst. bið á biðstofunni) að stinga í þetta þrisvar sinnum með nál. Ekki bar það þó tilætlaðan árangur og ákvað hann því að vefja þessu öllu inn í þykkar umbúðir og setja mig á sýklalyf.

Seinna um daginn fékk ég svo hita og lá fyrir allan næsta dag, drullu slappur með bólginn olnboga. Svona ætlaði ég ekki að eyða dögunum á Íslandi. Á föstudeginum var ég eitthvað að hressast og fórum við fjölskylan í stór afmæli hjá Ástþóri afa hennar Erlu. Þar var auðvitað margt um manninn, mikið hlegið og mikið talað. Runi kom alla leið frá Danmörku sem leynigestur við mikinn fögnuð fjölskyldu og vina.

Kvöldinu (og nóttinni) eyddi ég svo uppi á slysó aftur þar sem ég var settur á sýklalyf í æð. Lækninum fannst bólgan ekkert hafa minnkað og taldi lyfin ekki hafa borið tilskyldan árangur. Þetta þurfti ég svo að endurtaka daginn eftir áður en við fórum í flug heim til Danmerkur.

Ef ég tek saman alla klukkutímana sem ég þurfti að bíða niðri á slysó þá hafa þeir verið uþb. 8. Magnað það.

fimmtudagur, október 12, 2006

New York - Wrap Up

Síðasti dagurinn fór í að henda öllu í tösku og gera allt klárt fyrir kvöldflugið sem beið okkar. Eftir létt morgunpakk var haldið út í góða veðrið og tókum við stefnuna á Chinatown. Löbbuðum þar í gegn og versluðum nokkra trefla og Pashmínur. Þaðan var haldið upp í upbeat hverfi Greenwitch Village þar sem margt er að sjá. Við löbbuðum upp Bleeker street sem hefur að geyma allskonar búðir, allt frá Ralf Lauren til ostabúðarinnar sem selur uþb. 300 osta í það heila. Halli sinn hafði sagt mér frá bakarí í götunni sem heitir Magnolia Bakery og gerir bestu Cupcakes í heimi. Auðvitað keyptum við Erla okkur sitthvora kökuna og átum með bestu list.

Við vorum ekki búin að fara niður að Washington merkinu (The Arch) og ákváðum að labba þar framhjá og taka mynd. Þar var hinsvegar verið að taka upp nýja mynd Will Smith I am Legend og erfitt að var að ganga um án þess að sviðsfólk væri að fæla mann frá. Áfram héldum við niður á við og enduðum aftur á Broadway. Þar keypti ég mér þrífót fyrir nýju myndavélina og Erla kíkti í síðustu búðirnar áður en haldið var aftur heim í íbúð.

Það gekk vel að pakka (þótt svo við hefðum þurft að fjárfesta í nýrri íþróttatösku fyrir allt draslið sem við keyptum) og vorum við komin upp í leigubíl á leið út á flugvöll nokkuð tímanlega (þrátt fyrir umferð). Allt gekk eins og í sögu uppi á JFK flugvelli og gekk flugið líka eins og í sögu. Við vorum meira að segja 20 mínútum á undan áætlun þegar við lentum kl. 5.50 í morgun (miðvikudag). Heim var heldið til Hildar tengdó og þar lögðum við okkur aðeins áður en við fórum niður á Reykjavíkurflugvöll að sækja Guðjón Inga sem hafði verið hjá afa sínum og ömmu á Egilstöðum.

Ég á mjög líklega eftir að skrifa betri ferðasögu um þessa frábæru ferð þegar tími gefst :)

þriðjudagur, október 10, 2006

NY - Dagur 5 og 6

Það reyndist örlítið erfiðara en ég hélt í fyrstu að halda úti daglegu bloggi um ferðina til New York. Á milli þess sem maður labbaði, verslaði og skoðaði þá var sofið.

Það var þó á engan hátt slakað á síðustu tvo dagana í borg dauðans. Sunnudagurinn hófst í MoMA safninu sem einnig mætti kalla Nýlistasafnið. Þar skoðuðum við verk ekki minni manna en Picasso, Salvador Dali og Andy Warhol. Þaðan tókum við túrista rútu og rúntuðum um bæinn og enduðum niðri í miðbæ þar sem við hoppuðum út og virtum fyrir okkur Ground Zero (þar sem Tvíburaturnarnir voru áður). Þar fengum við tækifæri til að sjá ljósmyndir frá þessum örlagaríka degi í september. Myndirnar voru mjög lýsandi fyrir það sem gekk á þennan dag og greinilegt að sumt fólk tók þetta mikið til sín og sumir áttu erfitt með að halda aftur tárunum.

Þaðan var haldið upp Broadway þar sem við höfðum orðið okkur út um miða á söngleikinn .http://www.blogger.com/img/gl.link.gif Fengum frábær sæti á þessa fínu sýningu og var mjög gaman að geta farið á "Broadway Musical" á meðan við vorum stödd í New York. Eftir sýninguna löbbuðum við um Times Square og tók ég þar ma. þessa mynd sem mér fannst heppnast vel :)

Síðasti heili dagurinn okkar fór svo í labbitúr um Litlu Ítalíu og Kínabæ. Þvílík geðveiki sem sá bæjarhluti er. Mér fannst þetta alveg magnað andrúmsloft þar. Eins og sönnum Íslendingum sæmir eltum við einn kauða inn í búð þar sem hann opnaði leynihurð og leiddi okkur inn í lítið 10 fermetra herbergi fullt af Prada, Louis Vuitton og Gucci töskum upp um alla veggi. Erla keypti sér fallega Prada tösku og kostaði hún aðeins 25$ sem er auðvitað bara grín. Áfram héldum við upp Canal Street (aðal tösku gatan) þar til við komum að Broadway (ein stærsta verslunargatan) og hófum síðari verslunardaginn. Þessi verslunardagur var þó í styttra lagi þar sem við áttum pantað borð á flottum veitingastað um kvöldið, Asia De Cuba og okkur langaði heim að hvíla okkur aðeins. Við dressuðum okkur upp í okkar fínasta púss og tókum leigubíl á veitingastaðinn. Þessi staður var frábær í alla staði og virkilega kósý :)

Eftir matinn fórum við svo aftur heim og horfum á Studio 60 (nýja uppáhalds þáttinn okkar). Morgundagurinn var aðeins nokkra klukkutíma í burtu með tilheyrandi tösku pakki og flugi heim.

mánudagur, október 09, 2006

NY - Dagur 4

Fjórði dagurinn snérist um menningu. Hófst dagurinn í margfræga American Museum of Natural History (safnið sem Ross í Friends starfaði ma. í). Þar voru risaeðlur og uppstoppuð dýr auk þess sem við sáum frábæra sýningu, Cosmic Collition í boði Robert Redford. Við sátum innan í stórum bíó sal sem var í laginu eins og kúla og þegar maður hallaði sér aftur þá blasti við manni himininn.

Þegar við komum út af safninu blasti við okkur Central Park í allri sinni dýrð. Stærðin á þessum garði er ótrúleg. Ég las einhverstaðar að hann væri tvisvar sinnum stærð Monaco! Þar löbbuðum við um og virtum fyrir okkur alla hlauparana og joggarana sem voru að nýta sér góða veðrið til útiveru. Eftir góðan labbitúr vorum við komin að mínu uppáhalds safni, Guggenheim. Þar var sýning á verkum Zaha Hadid. Við löbbuðum upp spíralinn sem gerir þessa byggingu svo einstaka og nokkuð reglulega kíkti ég yfir handriðið til að sjá alla leið niður á botninn.

Næst þrömmuðum við niður 5th avenue. Framhjá öllum flottu íbúðabyggingunum sem hafa fancy dyravörð í anddyrinu sem segja "Good morning sir, can I get you a taxi?" Ekki ódýrt að eiga íbúð þarna, það get ég sagt ykkur. Við löbbuðum dágóða stund áður en við lentum á öllum verslununum. Auðvitað kíktum við inn í nýju Apple verslunina (stóra glerkubbinn) ásamt því að kíkja í Nike búðina, Tiffany's, Louis Vuitton og Barneys. Ótrúlega flottar búðir þarna sem eru ekkert að hafa fyrir því að verðmerkja hlutina ...

Þar næst kíktum við á Trump Towers og fengum okkur kaffi á Starbucks. Áfram var göngunni haldið niður 5th avenue og skoðuðum við Rockefeller Center þar sem NBC studios eru með búð. Þegar við svo komum að MoMA (Museum of Modern Art) safninu sem átti að vera síðasti dagskrárliðurinn þennan daginn var búið að loka. Því var haldið heim á leið og stoppað á Two Cups til að fá sér góða pizzu.

Það væri gaman að fá að vita hve marga kílómetra við löbbuðum þennan daginn ... :)

Nýjar myndir frá New York ...

Settum inn nokkrar myndir úr ferðinni :)

sunnudagur, október 08, 2006

NY - Dagur 3

Þriðji dagurinn okkar í New York snérist aðeins um eitt og voru það innkaup.

Við fórum frá íbúðinni og tókum stefnuna á Soho (South of Houston). Þar er mikil verslunarmenning og vilja heimamenn meina að þetta ágæta hverfi sé orðin ein stór verslunarmiðstöð. Við Erla byrjuðum á að labba niður Lafayette götu þar sem slatti af flottum hönnuðum eru með búðir. Þar er td. Brooklyn Industries og WESC (takk Egill). Keypti mér bol og tösku í B.I og erla keypti sér topp í WESC. G·STAR létum við vera enda kostuðu gallabuxurnar þar heila 160$! Áfram hélt leið niður Lafayette og fengum við okkur brunch á kaffihúsi í Soho. Þaðan löbbuðum við svo yfir á aðal verslunargötuna, Broadway. Við fikruðum okkur niður Broadway með því að fara í eina búð í einu. Eftir langan dag með ótal innkaupapoka tókum við Erla þá dramatísku ákvörðun að labba heim með allt draslið, sem og við gerðum. Við erum svo miklar hetjur ...

föstudagur, október 06, 2006

NY - Dagur 2

Það er mikið búið að ganga á í dag hjá okkur Erlu. Við rifum okkur upp snemma og skelltum okkur í ískalda, vatnslausa New York sturtu. Hressandi ...

Ákváðum að labba bara af stað og sjá hvar við enduðum. Við löbbuðum um East Village og upp á Broadway þar sem nóg var að skoða. Þaðan löbbuðum við áleiðis upp Broadway og skoðuðum Union Square og Madison Sq. Park. Fyrsti áfangastaður var uppi í Garmen hverfinu, B&H photo video búðin sem svo margir Íslendingar kannast við. Þvílík búð. Ef ég vissi ekki betur þá hefði ég haldið að þarna væri í gangi brunaútsala, þvílíkur var hamagangurinn. Ég keypti mér nýja myndavél og fína linsu. Ég fékk aðstoð hjá ágætum dreng sem heitir David. Ég vill meina að hann hafi verið eini gaurinn í búðinni sem ekki var gyðingur!

Þaðan lá leiðin niður Sjöunda avenue (aka. Fashion ave.) og fengum við okkur snæðing á fínum stað sem heitir Metro Café. Löbbuðum svo lengra þangað til við duttum niður á Times Square. Ég snérist bara í hringi þegar ég sá alla dýrðina. Ljósaskilti, auglýsingar, umferð, háhýsi, fólk allstaðar. Þetta var mjög sérstök upplifun. Við kíktum í Toys'R Us sem er álíka stór og meðal verslunarmiðstöð með leikföngum frá A til Ö. Við kíktum í nokkrar búðir þarna í nágrenninu ásamt því að kíkja í Madame Tussaud's safnið. Þar chilluðum við Nicolas Cage, John Travolta og George Bush.

Eitthvað var þreytan farin að segja til sín svo við skelltum okkur niður í Metro og ákváðum að láta reyna á þann samskiptamáta þar sem umferðin var mikil og leigubíll kannski ekki besta leiðin. Eitthvað höfum við lært af búsetu okkar í Danmörku því við hittum beint í mark og vorum komin á áfangastað eftir tæplega hálftíma. Tókum þetta lestarkerfi í nösina ...

Lögðum okkur í klukkutíma og héldum svo áleiðis í fínan kvöldverð á veitingastað hérna hinumegin við götuna. Ótrúlega þægilegur ítalskur veitingastaður með "live" tónlist. Fengum okkur pasta og Rioja rauðvín. Eftir fínann dinner tókum við leigubíl að Empire State. Við ætluðum að skoða alla ljósadýrðina þaðan. Þar sem við vorum svo seint á ferðinni var engin biðröð og vorum við komin upp í turninn á 5 mínútum. Við keyptum okkur CityPass og fengum frítt audio tæki til að hlusta á á meðan við vorum á útsýnispallinum. Röltum svo aftur niður í rólegheitum og tókum leigubíl heim. Fínn dagur.

fimmtudagur, október 05, 2006

New York New York

Þá erum við Erla loksins lent. The Big Apple eins og þeir kalla það, borgin sem aldrei sefur. Þetta er mikið menningarsjokk þegar komið er inn í Bandaríkin. Varla búinn að vera á Bandarískri grundu í 5 mínútur þegar einhver blökkumaður var farinn að taka fingraförin okkar Erlu og mynd.

Flugið gekk annars vel, horfði á Breakup sem var ágæt. Við vorum líka fyrst úr vélinni sem þýddi stutta bið í útlendingaeftirlitinu og tollinum. Það var svo traffík á leiðinni inn á Manhattan svo við vorum ekki komin hingað fyrr en að ganga 1 eftir miðnætti (okkar tíma). Íbúðin er æðislega "ömmuleg" og er í eigu dóttir fósturafa hans laddmundar. Við fórum aðeins á stúfana fyrsta kvöldið okkar í New York og keyptum helstu hlutina, vatn, mjólk og annað. Nú erum við búin að kúra í nokkra tíma og tími til kominn að heilsa borginni í dagsbirtu. Við stefnum á Empire State Building eða jafnvel bara í miðbæinn.

Jonni. Signing out from the Big Apple.

mánudagur, október 02, 2006

Bloggað úr klakaboxinu

Þá er maður kominn heim til Íslands ..... aftur. Það er næstum eins og ég geti ekki verið þrjá mánuði í Danmörku án þess að þurfa að ferðast til Íslands.

Allavega. Við ferðuðumst með Icelandair í þetta skiptið sem var í góðu lagi þar til við settumst inn í vélina. Vélin átti að fara í loftið 19.45 að staðartíma en vegna hóps Japana sem hafði komið með seinu tengiflugi urðum við að bíða í sjóðani hita í þrjú korter áður en vélin var komin í loftið. Guðjón Ingi svaf svo ekkert í vélinni en var þó hinn kátasti. Það gleðilega var að ég sat fyrir aftan mann sem ég hef mikið álit á og er það fyrrverandi borgarstjóri okkar Reykvíkinga hann Þórólfur Árnason. Það er einhver karismi sem þessi maður, útgeislun og góður persónuleiki sem hann býr yfir. Röddin í honum gæti svæft risa. Ég virðist ferðast með frægum Íslendingum því Össur (nr. 2) var í flugvélinni líka, þótt hann væri ögn tuskulegri út að líta en Þórólfur.

Þegar við komum inn í Leifsstöð fór Erla og náði í tollinn á meðan ég sá um farangurinn. Þegar Erla kom út úr tollinum aftur stóð ég ennþá að bíða eftir töskunum ásamt öðru fólki. Okkur (0g öllum hinum farþögunum) til lítillar ánægju slökknaði að lokum á færibandinu og ljóst var að engar töskur áttu eftir að bætast við. Icelandair hafði semsagt tekist að týna 60 töskum úr fluginu og urðu óheppnir farþegar að mynda röð sem þurfti að fylla út slatta af pappírsvinnu í þríriti. Konan tjáði mér svo að ég þyrfti að sækja töskurnar daginn eftir niður á BSÍ. Fáránleg þjónusta hjá þessu flugfélagi. Á endanum fórum við tvær ferðir niður á BSÍ og eina í Leifstöð áður en við fengum allan farangurinn okkar aftur (3 töskur). Næst flýg ég með Iceland Express ...

Á laugardeginum fórum við Sólarsala fjölskyldan út að borða. Ákváðum að prufa nýjan stað á Frakkarstígnum sem heitir Indian Mango. Við fengum að bragða á hinum ýmsu réttum og bragðaðist allt ótrúlega vel. Eftir að foreldrarnir höfðu farið heim í háttinn með krakkana löbbuðum við Erla ásamt systur Erlu, Elvu og kærasta hennar Magga niður Laugarveginn á pöbbarölt. Enduðum svo í góðu grilli með Gulla félaga inni á Kaffibarnum. Þar voru nokkrir bjórar drukknir auk þess sem mikið geirvörtuklíping fór fram.

Á sunnudeginum var svo skundað á Devitos í þynnkumat og var einni 16" skolað niður með ísköldu coke í dós til að slá á þynnkuna sem var ólýsanlega óbærileg þetta skiptið. Seinna um daginn fór ég svo í innibolta með strákunum og var tekið vel á því enda þessi drengir ekki þekktir fyrir annað.

Kvöldið fór svo í íslenskt lambalæri hjá tengdó. Fín helgi, fínni matur, frábær félagsskapur. Takk fyrir mig.