föstudagur, maí 25, 2007

miðvikudagur, maí 16, 2007

Myndir frá Parísarferð

Ég og Erla komum frá París á sunnudaginn eftir frábærar 4 nætur í þessari yndislegu borg. Það var mikið skoðað og mikið labbað að sjálfsögðu. Ég fer hiklaust aftur til Parísar í framtíðinni :)

Myndirnar má finna hérna á Flickr síðunni minni.

fimmtudagur, maí 10, 2007

Fyrsti dagurinn í París

Þá er það ein létt bloggfærsla um fyrsta daginn í París.

Við Erla vöknuðum snemma í morgun og tókum morgunflugið hjá SAS til Parísar. Lentum á Charles de Gaulle um kl. 10 og skelltum okkur bara í Metro niður í bæ eins og sönnum Dönum sæmir :)

Það var smá vesen að finna hótelið enda er það í svo lítili götu en það hafðist á endanum. Pínulítið kósý hótel rétt hjá Louvre safninu góða. Eftir smá hvíld uppi í rúmi héldum við á stað út menninguna og löbbuðum í gegnum Louvre garðinn og beint yfir á pont de neuf. Fundum Saint Chappelle kirkjuna og ákváðum að kíkja þangað inn enda hafði Laddi félagi mælt með því. Þvílík gluggalist sem er þarna inni að það jaðrar við geðveiki. Eftir Saint Chappelle löbbuðum við áfram með viðkomu á nokkrum börum og fengum okkur öl. Enduðum á Notre Dame kirkjunni og kíktum á hana. Þvílík byggingalist ...

Erum uppi á hótelherbergi núna og ætlum snemma í háttinn. Langur dagur á morgun :)

Vonandi nær maður að skella inn fleiri færslum héðan.

miðvikudagur, maí 09, 2007

Sorg, hamingja og tvöfallt afmæli

Nú er aldeilis tilefni til bréfaskrifta, enda nóg búið að gerast síðustu vikur.

Í lok apríl fórum við fjölsyldan í nokkuð fyrirvaralausa heimför til Íslands og var erindið ekkert sérlega ánægjulegt. Amma hennar Erlu (mamma hans Runa) hún Guðrún er búin að berjast við krabbamein frá því í Apríl í fyrra. Hún hafði verið hress þangað til í byrjun árs en hefur hægt og rólega hrakað svo tekin var ákvörðun um að fara heim og fylgja henni síðustu metrana. Hún lést á líknardeildinni í Kópavogi laugardaginn eftir að við komum, 72 ára að aldri. Jarðaförin var haldin í Hallgrímskirkju og heyrði ég hjá aðstandendum að um 500 manns hafi látið sjá sig í kirkjunni og uþb. 350 manns í erfðadrykkjunni.

Sama dag og jarðaförin var haldin átti Guðjón Ingi þriggja ára afmæli. Hann er að verða svo stór þessi elska. Því miður var ekki mikið um hátíðarhöld þann daginn svo ákveðið var að hittast í rólegheitum á sunnudeginum og klára kökurnar úr erfðadrykkjunni.

Seinna um kvöldið fórum við Erla svo í bíltúr niður í Gróttu sem hefur verið "okkar" staður frá því að við byrjuðum saman. Undirskrifaður ákvað að fara niður á skeljarnar og bað konunnar sem hann hefur haldið svo mikið upp á sl. 6 ár :) Hún sagði að sjálfsögðu já ....

Á mánudeginum fór svo Guðjón Ingi í flugferð austur til afa síns á Egilstöðum og ætlar að vera þar fram á sunnudag og koma svo heim með Runólfi og Heiðrúnu. Við Erla hringdum í hann í gær og hann var svo upptekinn hjá afa sínum, nýbúinn að fá Latabæjar stígvél og svo þurfti að sinna Rán líka (Hundinum hans Guðjóns) því hún er svo hvolpafull ... ekkert smá gaman í sveitinni!

Eins og það hafi ekki verið nóg þá er ég sjálfur orðinn 30 ára í dag. Geri aðrir betur!! Afmælisgjöfin mín frá Erlu var ferð til Parísar og erum við að fara strax í fyrramálið (hvar er betra að halda upp á nýja trúlofun en í borg elskenda?).

Viva la France!!


Kveðjur frá Kaupmannahöfn.