þriðjudagur, ágúst 29, 2006

Kuldakveðja

Þessi færsla kemur úr ísköldu klakaboxinu, Íslandi. Fór í loftið í gærkvöld, þokkalega slakur á því. Lítið að gera á flugvellinum og ég slapp nokkuð auðveldlega í gegnum tjékkin-ið og vopnaleitina. Ráfaði aðeins um í flughöfninni áður en ég hélt að lokum inn í flugvél.

Ég flaug með Iceland Express í þetta skipti og mundi ég hiklaust velja það flugfélag aftur ef ég fengi að velja. Það er ekki bara nóg pláss fyrir fæturnar á manni heldur er andrúmsloftið afslappað og þægilegt. Ekkert stanslaust áreiti eins og í vélum Icelandair, "Má bjóða þér Morgunblaðið?", "Hvað má bjóða þér að drekka?", "Viltu kaffi?", "Tollfrjálsan varnig?", "Meira kaffi?" Ef einhver ætlar að leggja sig í vél Icelandair, þá getur hann/hún gleymt því!

Ég lenti svo seint í gær og í þessum litla norðan garra. Ég á peysunni einni átti auðvitað von á sól og sumri enda ennþá ágúst eftir því sem ég best man. En nei, ekki á Íslandi ... brrrrrrrrrr.

Ég held svo aftur heim á leið á morgun svo ef einhver vill hitta á mig í dag eða á morgun þá er bara að slá á þráðinn :)

Kveðja úr 10 stiga hita!

fimmtudagur, ágúst 24, 2006

Daglega hugleiðingin

Mikið var gaman að stíga út í glampandi sólskin í morgun, setjast á reiðfákinn og halda áleiðis í vinnuna. Þetta er ágætis tilbreyting frá því að hjóla í mígandi rigningu, það get ég alveg sagt.

Á mótum Smallegade/Gl. Kong Vej og Falconer Álle er Araba strákur sem réttir reiðhjólafólki og öðru gangandi fólki dagblaðið. Ég geri alltaf smá keppni úr þessu, hjóla ógeðslega hratt og ímynda mér að ég sé í 1000 metra boðhlaupi ... eða boðhjóli? Í morgun gerði ég mig þó að algjöru fífli þegar ég náði ekki að grípa blaðið, heldur sló það úr höndinni á aumingja manninum. Ég þurfti auðvitað að snúa við og sækja blaðið, keyrandi umferð til lítillar ánægju. Hvað með það, ég sit á skrifstofunni núna með heitan kaffibolla og blaðið mitt. Það er skiptir öllu máli.

Annars er eins og flestir Danir séu upp til hópa á móti dagblöðum. Þeir standa nú í biðröðum á dönsku pósthúsunum, bíðandi eftir miðum til að líma á póstkassann sinn sem bannar allan ruslpóst. Ég segi það bara fyrir mitt leiti að ef ég hefði ekki fengið Fréttablaðið inn um lúguna hjá mér á hverjum degi (eða svona næstum því á hverjum degi. Blaðberinn okkar var algjör haugur!) þá hefði ég sennilega misst vitið.

Talandi um dagblöð. Í blaðinu í gær var grein um Alfons Åberg, betur þekktur á Íslandi sem Einar Áskell. Vissuð þið að "alfons" þýðir "melludólgur" á dönsku?

miðvikudagur, ágúst 23, 2006

Bullshit!

Ég er búinn að vera að fylgjast með frábærum þáttum sem heita "Penn og Teller: Bullshit." Þessir þekktu töframenn fara þar ofan í saumana á veraldlegum hlutum eins og trúverðugleika Biblíunar og blótsyrðum landa sinna.

Þættina er hægt að nálgast frítt á Google video. Enjoy!

þriðjudagur, ágúst 22, 2006

Frétt ársins?

Ég ætla að skjóta á að þetta verði frétt ársins. Afhverju fréttir um stríð, hungur og atvinnuleysi? Þetta er það sem fólk vill fá að sjá!

Osama var/er semsagt heitur fyrir ræsisrottunni Whitney Houston, guð hjálpi mér. Það er nú eitt að vera hryðjuverkamaður, en að vera skotinn í krakkhóru?
Þá segir Boof að bin Laden hafi „látið móðan mása" um uppáhaldssjónvarpsþætti sína, en það eiga að vera þættirnir The Wonder Years, Miami Vice og MacGyver, allir hluti af bandarískri menningu.
Kallinn fær þó smá respect fyrir að hafa horft á Wonder Years :)

mánudagur, ágúst 21, 2006

Google jörð


Mikið hef ég gaman að því að surfa um heiminn með músinni minni og Google Earth. Með nokkrum smellum er maður búinn að zoom-a á húsnúmer hjá félaga sínum sem var að flytja til Bandaríkjanna. Alveg ótrúlegt.

Einusinni fór ég til Los Angeles og keyrði þar um. Ég var svaka spenntur fyrir að sjá Hollywood skiltið margfræga en sama hvað ég leitaði lengi þá fann ég það aldrei (sem er skrítið því maður hefði haldið að þetta væri hangandi yfir borginni!!). Með Google Earth tók þetta mig hálfa mínútu og ég stóð sama sem fyrir framan skiltið :)

Hvað er meira? Jú, þessi síða er sniðug. Skoðaðu allar vinsælustu síður í heiminum án mynda og sjáðu hvort þú þekkir þær. Ég þekkti nú flestar ...

Gaktu í lið með Internetinu og berstu fyrir hlutleysi okkar allra!

Að lokum er hér hið margfræga George Foreman grill sem hægt er að tengja við tölvuna. Ég veit að mig langar í eitt svona á skrifstofuna :)

mánudagur, ágúst 14, 2006

Nokkrir punktar

  • Veðrið í Kaupmannahöfn gæti ekki verið meira "íslenskt!" (Rok og rigning)
  • Töpuðum 2-1 á móti Karólínu í gær. Súrt.
  • Ég hef aldrei verið með jafn miklar harðsperrur!
  • Gras.is með nýja síðu. Laglega gert hjá D3. Fínt fyrir okkur fótboltaáhugamenn.
  • Búið að bóka New York 4 - 10 október :D

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

Erfið byrjun

Það er ekki auðvelt að fara á fullt eftir 3 vikna rólegheit og tölvuleysi.

Frekar rólegt í vinnunni, er að vinna á hæga en afkastamikla tempóinu hlustandi á Antony and the Johnsons (Tona og Jónsana). Þið vitið hvað ég á við. Ég er nefnilega að detta í þetta Antony and the Johnsons æði sem allir eru löngu búnir að ganga í gegnum. Þetta er svo ólýsanlega falleg melódía og vill ég þá helst nefna "Cripple and the Starfish", "Man Is the Baby" og "You Are My Sister" (með Boy George) sem uppáhald.

Hildur tengdó og systkini Erlu (Guðný og Markús) komu í gær. Þau ætla eitthvað að spreða sumarhýrunni sinni heyrði ég. Ætli þau verði ekki að fara í Fields. Það er nefnilega demba úti :)

þriðjudagur, ágúst 08, 2006

Waiting...

Ég verð bara að mæla með þessari mynd fyrir þá sem hafa ekkert betra að gera.

Back in the game

Sumarfríið búið. Þvílík sorg. Þetta eru búnar að vera fínar 3 vikur þótt svo ein þeirra hafi farið í rúmlegu og veikindi. Það þýðir þó ekki að örvætna því við konan erum þegar farin að skipuleggja næsta frí. Í byrjun október ætlum við að fara í víking til Stóra Eplisins, New York. Þar ætlum við að baða okkur í menningu og drykk og njóta alls sem þessi víðfræga borg hefur upp á að bjóða.

Ég var duglegur að glugga í bækur í fríinu og kláraði ma. frábæra teiknimyndasögu, "V" For Vandetta. Ég var fyrir löngu búinn að ákveða að klára bókina áður en ég sæi myndina svo það var loksins um helgina sem ég settist niður og horfði á þessa annars fínu mynd. Laddi vinur lánaði mér aðra bók að lesa og heitir hún Maus eftir Art Spiegelman. Einstaklega vel heppnuð bók sem fjallar á sannsögulegan hátt um seinni heimsstyrjöldina og helför Nasista gegn Gyðingum. Bókin er sett upp í teiknimyndaformi þar sem höfundurinn notast við dýr til að teikna sögupersónur sínar. Þannig verða Gyðingar mýs, Nasistar eru kettir, Kanar eru hundar og Pólverjar eru svín til að nefna eitthvað. Þess má geta að bókin er fyrst teiknimyndabóka til að fá Pulitzer verðlaun.

miðvikudagur, ágúst 02, 2006

Sprite Zero

Rakst á þessa skemmtilegu Sprite Zero auglýsingu niður við Frederiksberg Centre í vikunni. Sýnir að ef budgetið er gott og viðskiptavinurinn "líbó" þá er allt hægt.

P.S Auglýsingin breytist semsagt eftir því hvar maður stendur og horfir á :)