
Þá er afhendingu
Vefverðlaunanna lokið. Þau fóru fram við hátíðlega athöfn í Iðnó í gær. Þar sem ég bý erlendis sá ég mér ekki fært að mæta á verðlaunin sem ég hefði betur gert því ég vann til tvennra verðlauna (þegar ég segi "ég" þá á ég auðvitað við mig og alla þá sem unnu með mér). Verðlaunin fékk ég fyrir vef Íslandsbanka,
isb.is. Þau voru veitt fyrir besta fyrirtækjavefinn og besta útlit og viðmót.
Mbl.is fékk svo verðlaun sem besti Íslenski vefurinn fyrir nýja leitarvél sína
Embluna. Einnig fékk síða
Skjásins verðlaun fyrir afþreyingu og vefur
Árna hamstur fékk svo verðlaun fyrir besta einstaklingsvefinn. Það sem hefur þó varpað svörtum bletti á þessa annars ágætu hátíð er fólk sem finnur sig neytt til að fara af stað með samsæriskennigar, þessi þekkir þennan, sem þekkir þennan, sem er í dómnefnd. Það voru meðlimir í dómnefnd sem gátu ekki verið hlutlausir en varamenn voru fengnir til að taka þeirra stöðu ef upp komu hagsmunaárekstrar. Ég hef setið í þessari dómnefnd og get fullvissað alla um að hér fer fram heiðarleg og markviss kosning innan dómnefndar.
Ég læt þetta duga í bili. Ég ætla að njóta verðlaunanna, laus við alla neikvæðni og svartsýni sem virðist einkenna suma Íslendinga.
Lifið heil.