föstudagur, mars 31, 2006

Lífverðir drottningar

Þegar maður vinnur við hliðina á Drottingunni kemst maður ekki hjá því að rekast á lífverði hennar hátignar af og til. Ef ég sé þá ekki yfir daginn þá tek ég stundum á mig krók á heimleið bara til að gleðja augun. Það er eitthvað svo róandi að horfa á þessa beinstífu sóldáta í sínu fínasta pússi labba um eins og borðfjalir í takt við hvorn annan. Ég elska gamlar hefðir.

Radiohead tónleikar

Þá er þetta komið á hreint. Radiohead tónleikar í KB Hallen 7. maí. Mikið hlakkar mig til. Laddmundur, runi, Björgvin og gugga ætla öll að skella sér með og verður væntanlega staldrað við í mjöð á Peter Bangs áður en haldið verður á tónleikana enda á ég heima svo nálægt KB Hallen að það er næstum því úti í garði hjá mér.

Nú er bara spurning hvort þeir taki gamla slagara þar sem maður þekkir þá best eða hvort þeir fari út í súrari tóna eins og þeir hafa verið að gera á síðari árum. Vonandi taka þeir bara allt draslið :)

þriðjudagur, mars 28, 2006

Ljósmynda áskorun

Á laugardaginn kemur hef ég ákveðið að bregða mér í ljósmyndamaraþon, sem verður þó örugglega nær hálf maraþoni. Ég ætla mér að taka eina ljósmynd á dag sem ég gæti post-að hér á síðuna, sjálfum mér og öðrum til mikillar ánægju.

Ljósmyndaáhuginn er að kveikna aftur eftir smá dvala. Vorið er komið og manni er farið að kítla í fingurnar að taka upp vélina og munda hana. Á laugardaginn er svo búið að fá mig í að taka ljósmyndir í brúðkaupi Ómars og Hönnu Gunnu (vinafólk) og verður það byrjunin á þessu öllu saman. Er bara farið að hlakka til :)

mánudagur, mars 27, 2006

Helgin sem leið

Þetta var bara aldeilis prýðileg helgi. Á föstudaginn hélt Baldvin (FC Guðrún) upp á þrítugsafmælið sitt og mættu flestir strákarnir úr boltanum í veisluna. Þegar við laddmundur mættum á svæðið stóð afmælisbarnið við grillið og var að kokka upp glóðsteiktar rauðar pylsur á danska mátann. Pyslsunum var svo skolað niður með ca. 10 kössum af bjór (dugar ekkert minna). Á laugardeginum vaknaði ég svo gríðarlega "hress" eftir atburði næturinnar og ákvað að skella mér í dýragarðinn með Jr. Hitti runa og Ástþór Inga fyrir utan innganginn og við löbbuðum um garðinn í skíta kulda. Það var þó gaman að sjá að bæði ljónin og birnirnir í garðinum eru komin með afkvæmi og voru litlu birnirnir sérstaklega sætir. Fengum svo laddmund og tósu í kjúttling um kvöldið og horfðum á idol saman. Sunnudeginum eyddum við svo feðgarnir saman heima að leika á meðan mamma var að læra með runa (sem svaf víst allan tímann hehe) úti á Solbakken :)

laugardagur, mars 25, 2006

Zoologisk Have

Jæja, við feðgar vorum að koma úr dýragarðinum. Öll dýrin virðast vera að eignast unga núna og sáum við litla ljónsunga og pínu ponku ponsu litla bjarnar unga sem voru svakalega sætir. Vorið ætlar greinilega að láta bíða eftir sér aðeins lengur því ég var gjörsamlega að krókna úr kulda í dýragarðinum. Fínasta skemmtun engu að síður.

sunnudagur, mars 19, 2006

Með vorinu kemur annar litur

Það er óhætt að fullyrða að vorið er á næstu grösum. Hitinn loksins kominn upp fyrir frostmark á daginn og örlar meira á sólinni gert hefur síðustu vikur og mánuði, já mig hlakkar sko til!

Í tilefni þess að vorið fer að koma hef ég ákveðið að breyta yfir í hvítt á þessari síðu. Svarti liturinn var orðinn full dökkur fyrir þennan árstíma :)

Annars er ekki mikið að frétta. Guðjón Ingi búinn að vera með hita um helgina og við höfum reynt að slappa aðeins af. Fórum til Runa og Heiðrúnar í gærkvöldi og bökuðum pizzu að hætti þeirra hjóna.

föstudagur, mars 17, 2006

Glitnir er rauður!

Þá hefur Íslandsbanki fengið vænlega yfirhalningu. Blái viðskiptaliturinn fékk að fjúka fyrir sjóðheitum lit Samfylkingarinnar (og Og Vodafone :)). Ætli landinn verði ekki að fá að venjast þessu aðeins, því þetta er talsverð breyting. Sjálfur er ég viðskiptavinur Glitnis (fyrrum Íslandsbanka) en þar sem ég bý ennþá í Kaupmannahöfn þá hef ég ekki orðið var við alla breytinguna á útibúum ofl. sem flestir sjá heima á Íslandi.

Ég er að vísu búinn að vita af þessari breytingu síðan 1. febrúar þegar ég var sendur heim til Íslands í "briefing." Þar sem ég hef verið vefhönnuður Íslandsbanka/Glitnis í gegnum árin var ég kallaður inn á teppi og beðinn um að hanna vefinn með tilliti til nýja merkisins. Það útlit er ss. það sem þið sjáið í dag á www.glitnir.is og tel ég það bara hafa heppnast með ágætum, þótt rauuuuutt sé!

Vonandi fær þessi síða svo að lifa lengur en í hálf ár (sem er ca. lifitíminn á gamla isb.is vefnum sem fékk ma. 2 verðlaun :))

sunnudagur, mars 12, 2006

Þriggja barna faðir

Í gær fengum við Erla tvö börn til viðbótar á heimilið. Runi og Heiðrún voru nefnilega að fara í matarboð með fjölskydu Heiðrúnar í Malmö og fengu því Ástþór Ingi og Kristján Daði að gista hjá okkur á meðan. Það er aldeilis búið að vera nóg að gera og ljóst að það er ekki tekið út með sældinni að vera þriggja barna faðir :)

Nú sitjum við bara í stofunni að horfa á Magga Slef taka flikk flakk hægri vinstri í Latabæ því við þorum ekki út í kuldann. Það er nefnilega 5 stiga frost í Kaupmannahöfn!!

fimmtudagur, mars 09, 2006

Arsenal for "real"

Mikið var gaman að sjá Arsenal komast áfram í Meistaradeildinni í gærkveldi. Leikurinn fór fram á Highbury og óhætt að segja að mikið hafi verið í húfi fyrir bæði lið (Arsenal og Real Madrid þeas.) Fyrir leikinn áttu þessi lið aðeins einn möguleika á titli í ár og var það Meistaradeildar titillinn. Leikurinn endaði 0-0 en var þó hin besta skemmtun og ég var alveg að fara á taugum undir lokin (Arsenal komst áfram eftir að hafa unnið fyrri leikinn 1-0).

Óska mínum mönnum til hamingju með að vera eina enska liðið sem komið er áfram. Óska líka Liverpool og Chelsea með að vera dottið úr leik, þeir áttu það svo sannarlega skilið.

þriðjudagur, mars 07, 2006

Ruglið

Enn og aftur var Metro-ið í ruglinu í morgun. Ekki að það gerist á hverjum degi en manni finnst það samt gerast allt of oft. Þegar ég mætti á Flintholm í morgun var pallurinn pakkaður af fólki. Þar sem ég er einstaklega "slank" (eins og danskurinn segir) þá náði ég að vippa mér fremst í röðina og koma mér inn í næstu lest (beið þó í 10 mín í frjósandi kulda). Ekki skánaði ástandið þegar nær dróg miðbænum, fólk í hópum að reyna að troða sér inn í þegar smekkfulla lestina. Þetta var eiginlega hálf klúðurslegt. Var þó með iPod-inn í eyrunum og sló ég taktinn með De La Soul. Erfitt að kvarta yfir seinni lest þegar maður heyrir þessa snillinga rappa um það hvernig sé að alast upp í gettó-inu. Þar flokkast lestir undir lúxus samgöngur ...

fimmtudagur, mars 02, 2006

Tónlist á meðal fólksins

Að öllu jafna labba ég frá Frederiksgade niður að Kongens Nytorv eftir vinnu til að taka Metro heim. Hef í raun ekkert á móti því, alltaf frískandi að fá sér smá labbitúr eftir langan vinnudag. Í gær breytti ég þó aðeins til, þó ekki viljandi. Ég setti iPod-inn minn í gang og kveikti á nýjasta disk Sigur Rósar, Takk.

Það er eins og öll ferðin heim breyttist í lítið ævintýri. Allt fólkið á leiðinni breyttist í einskonar söguhetjur, ég get eiginlega ekki úskýrt það betur. Tónlistin er svo draumfengin og dulúðleg að maður fer ósjálfátt að "spá" í fólki í kringum sig. Hvernig persóna er þetta? Hvaðan kemur þessi? Hvert eru þau að fara?

Fyrir þá sem vilja upplifa þessa tilfinningu þá mæli ég með einu stk. iPod, Sigur Rós og hressandi göngu í miðbænum.

miðvikudagur, mars 01, 2006

Frægðin

Um daginn var haldið hið árlega þorrablót Íslendingafélagsins hér í Kaupmannahöfn. Fögnuðurinn var haldinn í Nimbs í Tívolí og margt um manninn, sennilega hátt í 300 manns (400 með öllum öryggisvörðunum!). Veislan fór vel fram og fagnaði ég með félögum mínum í Fótboltafélaginu Guðrúnu fyrsta sæti í Icelandair Open (sem fór fram fyrr um daginn). Einhverjum ljósmyndaranum þótti það svo merkilegt að hann/hún tók af okkur (ég, Ingi, Jón Auðunn og Baldvin) mynd og sendi í Hér & Nú. Ég er því í blaði með ekki minni mönnum en Bubba, Sirrý og Jessicu Simpson.

Sækjið blaðið hér (bls 41)

... og til hamingju með afmælið í dag Runi!! :)