Í gær varð ég fyrir því óláni að týna símanum mínum. Ég var á harðahlaupum á eftir strætó og datt hann sennilega úr öðrum vasanum við hamaganginn. Ekki uppgötvaði ég þó missinn fyrr en ég var hálfnaður í vinnuna og taldi því ólíklegt að síminn væri ennþá á sínum stað ef ég snéri aftur til baka. Til öryggis sendi ég SMS í símann minn þar sem ég lofaði gulli og grænum skógum ef sá er finndi símann kæmi honum aftur til réttmæts eiganda. Erla týndi nefnilega símanum sínum fyrir einhverjum mánuðum síðan og hefur hún aldrei séð til hans aftur svo ég var ekki að gera mér miklar vonir (mætti nefna að hjólinu mínu var stolið fyrir nokkrum vikum) um að fá símann til baka. Það var því gríðarlega óvænt þegar ég fékk símtal (í símann hjá ladda) tveim tímum síðar. Einhver kona hafði fundið hann á götunni og í góðmennsku sinni hringt og komið honum í sjoppuna hinumegin við götuna. Ekki vildi hún fá neitt fyrir fyrirhöfnina svo ég þakkaði henni í bak og fyrir á minni vel slípuðu dönsku og bað hana vel að lifa.
Ég var svo glaður í hjarta gerði ég tvö góðverk í staðinn seinna um daginn (algjörlega ómeðvitað reyndar). Á leið minni á æfingu rakst ég á mann sem var við það að missa 100 kall úr rassvasanum. Ég kallaði auðvitað til hans og benti honum á seðilinn sinn. Hann var afskaplega ánægður að fá að vita þetta og skaut seðlinum djúpt ofan í vasann aftur. Í miðasölunni á lestarstöðinni gerði ég svo annað góðverk með því að rétta viðkunnanlegum manni númerið mitt þegar ég var á leiðinni út (ég þurfti nefnilega ekki að nota mitt) og sparaði honum því 10 mínútur í biðröð. Hann varð ákaflega ánægður enda kominn langt yfir þann aldur að nenna að bíða eftir nokkrum sköpuðum hlut.
Ég vildi að fólk gerði góðverk daglega og það mjög meðvitað. Þannig yrði heimurinn sennilega betri fyrir vikið (amk. betri en hann er í dag).
Svo er HM að byrja í kvöld. Opnunarleikur Þjóðverja og Costa Rica. Við laddmundur ætlum að byrja gleðina á Peter Bangs Vej með upphitun í gosi og snakki. Næstu vikur verða fótbolti, fótbolti, fótbolti ... maður lifandi!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Þetta er svona Pay It Forward dæmi ...
Vonandi kemurðu af stað bylgju.
Skrifa ummæli