sunnudagur, september 24, 2006

Kengúra, Christania og mark frá miðju

Þá hefur þessi ágæta helgi runnið sitt skeið og hefur vægast sagt verið stíf dagská síðustu daga. Á föstudeginum var haldið, ásamt pabba hennar Erlu og konu hans á Reef'n Beef þar sem ég fékk tækifæri á að smakka Emúa og Kengúru. Svolítið spes kjöt að sjálfsögðu en mjög gott engu að síður. Í eftirrétt var svo "Death by Chocolate" eins og það heitir á matseðlinum ásamt glasi af Camus Extra og heitu kaffi. Ég stóð svo varla í lappirnar þegar við löbbuðum út af staðnum, svo mikið var étið!

Á laugardeginum fórum við svo í túristaferð niður í Christaníu (sjá inngang á mynd). Ég hafði aldrei komið þangað áður og var svolítið spenntur að sjá þetta umtalaða hverfi í Kaupmannahöfn. Við löbbuðum þarna um og skoðuðum varning sem var til sölu, kíktum á mannlífið þarna og settumst niður í einn öl. Bara allt í allt nokkuð skemmtilegur leiðangur. Eftir Christaníu var haldið niður í bæ þar sem við tókum púlsinn á mannlífinu áður en við löbbuðum upp Strikið og tókum strætó heim. Guðjón Ingi var svo í næturpössun hjá afa sínum og ömmu á hótelinu um kvöldið og við konan fórum í matarboð með Runa og Heiðrúnu hjá Herr Laddmundi og konu hans Þórunni. Aldeilis fínn matur sem þau hjónin höfðu eldað og átu allir á sig gat (að sjálfsögðu). Eitthvað var nú Christaníu gangan farin að segja til sín því ég dottaði aðeins eftir matinn.

Sunnudagurinn byrjaði með látum. Fótboltaleikur í deildinni við lið De Grønne Bude. Það var varla liðin mínúta þegar ég hamra boltann af miðjunni og beint í lappirnar á Oddi ofurframherja sem var ekki lengi að nýta sér þetta færi og setti hann í netið, eitt núll fyrir okkar lið. Eitthvað urðu þeir nú pirraðir við þetta og sótti lið De Grønne látlaust fram að hálfleik og skoruðu eitt mark undir lokin og var því jafnt í hálfleik. Við byrjuðum seinni hálfleikinn þannig að Oddur tók við boltanum á miðjunni og flengdi hann í átt að markinu. Markmaðurinn hafði staðið of framarlega, auk þess sem hann var með sólina í augun og okkur til mikillar gleði endaði boltinn í netinu, ótrúlegt mark og við vorum komnir aftur yfir. Seinni hálfleikur var okkur meira að skapi og náðum við tökum á leiknum nokkuð örugglega. Ég átti meðal annars skalla í stöng og nokkur dauðafæri fóru fyrir ekkert. Við bættum svo við einu marki undir lokin og sanngjarn (en skrítinn!) sigur F.C Ísland staðreynd.

Nú eru tengdó farin í stóru flugvélina og á leið heim. Erla var að setja ljúffenga hænu í ofninn og verður hún snædd eftir 40 mín ca. Þá ætti þynnkan síðan í morgun loksins að renna úr manni :)

Engin ummæli: